Námið
Rannsóknir
HR
Neon

Um Skema

Nám sem veitir nemendum forskot til framtíðar

Skema sérhæfir sig í kennslu og rannsóknum með sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarljósi. 

Skema stendur fyrir fjölbreyttum tækninámskeiðum og vinnur auk þess að því markmiði að kennsla í forritun verði í boði í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þá hefur Skema, í samstarfi við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, rannsakað þau áhrif sem kennsla í forritun hefur á hina ýmsu þætti þroska og námsgetu barna.

Skema notar aðferðafræði sem er studd af rannsóknum á sviði sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði. Undirstöðuatriði aðferðafræðinnar byggja á jákvæðni, myndrænni framsetningu og notkun á þrívíðum forritunarumhverfum til að stíga fyrstu skrefin inn í heim tækninnar.

Saga Skema

Nýsköpun byggð á rannsóknum 

Árið 2010 hefst saga Skema þegar stofnandi fyrirtækisins, Rakel Sölvadóttir, vann verkefni í áfanga um þroskasálfræði í BSc-námi sínu í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Í verkefninu kannaði hún, ásamt Laufeyju Dís Ragnarsdóttur, öðrum nemanda, hvort börn hafi áhuga og getu til að forrita. Þær fluttu erindi um verkefnið hjá Samtökum íslenskra leikjaframleiðenda, IGI, og hlutu afar jákvæðar móttökur. Þær Rakel og Laufey sáu fljótt að hugmyndin um nám fyrir börn í forritun hlaut góðan hljómgrunn og ákváðu að senda inn umsókn í frumkvöðlakeppnina Fræ ársins árið 2011. Þar hlutu þær fyrstu verðlaun. Þá varð fyrirtækið Skema til. Laufey Dís ákvað að einbeita sér að því að ljúka námi og því hélt Rakel áfram rekstri og uppbyggingu Skema. Skema og Reiknistofa bankanna (RB) stofnuðu árið 2013 sjóðinn Forritarar framtíðarinnar sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Árið 2017 tók Háskólinn í Reykjavík við verkefnum Skema. Rakel tók við stöðu verkefnastjóra Skema í HR sem er hluti af Opna háskólanum í HR.

Forritun gerð aðgengileg

Frá stofnun Skema hefur verið unnið ötullega að því að kenna börnum og unglingum forritun, bæði með því að halda hin svokölluðu Skema-námskeið og í samstarfi við grunn- og framhaldsskóla. Má þar nefna Hofsstaðaskóla og Finnbogastaðaskóla, einn minnsta grunnskóla landsins. Einnig hefur Skema verið áberandi á UTmessunni, árlegri upplýsingatæknihátíð, þar sem börn geta prófað forritun sér að kostnaðarlausu. Skema hefur átt fulltrúa  Forritunarviku EU á Íslandi síðan árið 2013 þar sem sýnt er fram á mikilvægi forritunar. Reynt hefur verið að hvetja stelpur sérstaklega til að kynna sér forritun meðal annars með sérstökum tæknistelpunámskeiðum og samstarfi við félag í tölvunarfræðideild HR um aukningu kvenna í tölvunarfræði, /sys/tur. Skema hefur jafnframt sinnt kennslu á Stelpur og tækni deginum sem HR stendur fyrir.

Sérúrræði

Auðvelda skipulag og veita hugarró 

Hjá Skema læra krakkar aðferðir sem notaðar eru á efri stigum skólakerfisins og í atvinnulífinu, en inn í kennsluna er fléttað hugarkortum og flæðiritum. Þannig öðlast nemendur tæki og tól til að takast á við þau verkefni sem þeir munu þurfa að leysa í lífi og starfi seinna meir. Rannsóknir hafa sýnt að ofangreindar aðferðir nýtast börnum vel til að ná að skipuleggja sig, halda aftur af kvíða og auðvelda þeim að ná hugarró.  

Framkvæmd og fikt

Skema gerir ekki ráð fyrir að nýir nemendur hafi þekkingu á forritun og leggur áherslu á að nemendur læri í gegnum framkvæmd og fikt. Á námskeiðum hjá Skema fá krakkar kennslu sem mætir þeirra þörfum. 

Ungur drengur lærir á Kano tölvu

Leiðbeinendur 

Fá markvissa þjálfun

Allir leiðbeinendur Skema eru 18 ára eða eldri. Þeir ljúka markvissri þjálfun þar sem farið er yfir tæknilegar hliðar kennslunnar og aðferðafræði Skema. Í þjálfuninni fara sérfræðingar okkar auk þess yfir mikilvæg atriði er varða vinnu með börnum og viðbrögð við mismunandi þörfum og hegðun. Allir leiðbeinendur skila fullu sakavottorði.

Læra af jafningjum 

Skema leggur mikið upp úr jafningjakennslu og því starfa einnig hjá okkur aðstoðarleiðbeinendur á aldrinum 15-18 ára sem hafa farið í gegnum námskeiðin okkar og þekkja frá fyrstu hendi þær hindranir sem börnin rekast á þegar þau taka fyrstu skrefin inn í heim forritunar. Þau þekkja auk þess tækifærin sem felast í því að byggja upp grunn tækniþekkingar snemma á lífsleiðinni.

Fara efst